Þjóðir heimsins eru enn að eiga við miklar og margvíslegar áksoranir vegna Covid-19 heimsfaraldursins. Við fengum nýlega uppfærðar fréttir af stöðunni frá skólastjórnendum okkar í Afríku og Asíu
Kenýa
Skólinn er enn lokaður. Starfsfólk skólans hefur reglulega samand við alla nemendur og fjölskyldur þeirra, taka stöðuna hjá þeim og veita þeim hjálparhönd sem þess þurfa. Þau hafa meðal annars keypt lyf og greitt fyrir sjúkrahúsvist, gefið matarpakka, hjálpað fjölskyldum sem hafa misst heimili sín og keypt skólabækur og sent heim til elstu nemendanna svo þau geti undirbúið sig fyrir lokaprófin, ef af þeim verður. Það eru 3 sjónvarpstöðar nýttar til að senda út kennsluefni fyrir mismunandi aldurshópa í Kenýa og hafa þeir nemendur okkar sem hafa aðgang að sjónvarpi getað nýtt sér það. Stjórnvöld hafa ekki tekið ákvörðun um það hvernær skólar verða opnaðir á ný.
Búrkína Fasó
Elstu nemendur fengur að taka lokapróf þann 1. júní en aðrir nemendur eru í sumarfríi til 1.október. Starfsfólk er þó í sambandi við nemendur og fjölskyldur þeirra og veita þeim ráðgjöf og hjálp eftir því sem hægt er.
Úganda
Almenningssamgöngur fóru aftur í gang þann 4.júní – þó aðeins með helmings farþegafjölda og hærri fargjöldum. Þeir sem keyra um á mótorhjólum mega ekki hafa farþega en í bíl mega einungis vera 3 einstaklingar í einu. Stjórnvöld hafa aftur frestað opnun skólanna, þeir áttu að opna 4.júní en hefur verið frestað til 4.júlí og þá einungis fyrir elstu nemendurna. Enn er lokaði í öllum almenningsgörðum, kirkjum og verslunarmiðstöðum en matvöruverslanir eru opnar. Allir þurfa að vera með grímu utan heimilis og er útgöngubann frá kl. 19:00 til 6:30.
Bangladess
Ástandið í Bangladess er nánast óbreytt. Skólahaldi hefur verið frestað. Foreldrar margra nemenda okkar hafa misst vinnuna vegna Covid-19 og eiga erfitt með að láta enda ná saman. Yfirvöld og hjálparsamtök hafa reynt að hjálpa eins og hægt er með matargjöfum.
Pakistan
Í Pakistan hafa stjórnvöld gefið það út að skólar verði lokaðir að minnsta kosti til 15.júlí. Þeir hafa þó þurft að fresta opnun nokkrum sinnum því enn er tilfellum smitaðra að fjölga. Mikil fátækt var fyrir á svæðinu og hefur staðan einungis versnað. Múrsteinavarksmiðjurnar hafa nýlega verið opnaðar aftur, en mikil vöntun er á mat á svæðinu. Skólastjórnendur hafa verið að fara með matarpakka til nemenda okkar og fjölskyldna þeirra.
Filippseyjar
Á Filippseyjum er fólk enn í sóttkví. Starfsmenn skólanna mega mæta á skrifstofuna en ekki fara út í hverfin til nemenda og fjölskyldna þeirra. Matarúthlutun og fræðsla tengd Covid, fyrir foreldra, hefur því farið fram í skólunum. Aðstoðarborgarstjóri ásamt lögreglu hafa verið að hjálpa til við þessar úthlutanir og sjá til þess að fjarlægð á milli fólks sé framfylgt. Það má því segja að allir leggist saman á eitt að hjálpa til.
Indland
Á Indlandi er smitum enn að fjölga og hefur útgöngubanni verið framlegt um tvær vikur. Starfsfólk skólans hefur verið í símasamandi við nemendur og fjölskyldur þeirra, veitt þeim ráðgjöf og sýnt þeim umhyggju. Þau hafa hjálpað fjölskyldunum eftir fremsta megni og eins vísað þeim áfram á fleiri staði til að fá meiri mataraðstoð. Vöntun er á grímum og sótthreinsispritti.
Staðan er erfið á mörgum stöðum, en við höldum ótrauð áfram og gerum hvað við getum til að létta undir, hjálpa til með matarsendingum, fræðslu og hvatningu.