Miklar rigningar voru í Pakistan í lok júní og í byrjun júlí. Ástandið var vægast sagt skelfilegt og fjöldi fólks lést þegar þök húsa hrundu. ABC rekur skóla í Sheikhupura héraði í Pakistan í samstarfi við frjálsu félagasamtökin Rasta foundation of Pakistan. Í þessum miklu flóðum var ástandið slæmt hjá mörgum fjölskyldum nemenda okkar. Börnin komust ekki í skólann, foreldrarnir komust ekki til vinnu og það var bókstaflega vatn alls staðar. Þök hrundu hjá mörgum þessara fjölskyldna og veggir húsa gáfu sig. Engan mat var að fá og sumar fjölskyldur fengu ekkert að borða í heila viku.
ABC veitti fé úr neyðarsjóði til að bregðast við þessu neyðarástandi og voru fjölskyldum nemendanna 213 gefnir matarskammtar fyrir heimilin. Skammtarnir miðast við stærð hverrar fjölskyldu en allir fengu mat sem endist þeim í nokkrar vikur. Meðfylgjandi myndir og myndbönd sýna hvernig umhorfs var eftir hamfarirnar og líka má sjá starfsfólk flokka, pakka og útdeila mat til fjölskyldnanna. Notaður var hestvagn til að koma matnum til fólksins og eins og má sjá var það mikið gleðiefni þegar hesturinn birtist með allan matinn!