Viðburðarríkt ár í ABC skólanum í Búrkína Fasó - ABC barnahjálp

Viðburðarríkt ár í ABC skólanum í Búrkína Fasó

alt

Skólinn var settur á fót árið 2008 í borginni Bobo Dioulasso í Búrkína Fasó og forstöðumenn skólans eru hjónin Hinrik Þorsteinsson og Guðný Ragnhildur Jónasdóttir. Þau stjórna skólastarfinu og dvelja í landinu hluta ársins. Auk þeirra starfa um 30 manns.

Seinnipartinn í september á síðasta ári kom upp hættuástand í landinu þegar foringjar lífvarðasveitar forsetans frömdu valdarán og tóku völdin í höfuðborginni Ouagadougou. Ellefu manns létu lífið og meira en 250 særðust í átökunum sem fylgdu. Áhrifum valdaránsins gætti víða og starfið hjá ABC skólanum í Bobo varð fyrir talsverðri röskun. Að sögn Guðnýjar var ástadið í borginni rafmagnað en Bobo Dioulasso er í um 400 kílómetra fjarlægð frá höfuðborginni. Um tíma var útgöngubann í gildi, matarbirgðir voru af skornum skammti og verslanir voru lokaðar. Skólastarf hófst að nýju fimm dögum seinna en áætlað var og hlutir fóru í eðlilegt horf smám saman.

Strax í byrjun árs var hægt að greina frá frá gleðilegum tíðindum. Fyrirtækið Tengill ehf. gaf ABC 91 tölvu og voru þær sendar til skólans í Búrkína Fasó. Gjöfin kom sér svo sannarlega vel og þrátt fyrir plássleysi var stofu komið upp í tæknihúsinu þar sem smíði og bifvélavirkjun er kennd og tölvudeild komið þar fyrir. Að mati Guðnýjar kemur tölvudeild skólanum á miklu hærra plan og nemendur skólans verða færari í framtíðinni þegar kemur að atvinnuleit.

Íslensk hjón, Hilmar Kristinsson og Anna Þorsteinsdóttir, vörðu tæplega fjórum mánuðum í skólanum og aðstoðuðu við öll möguleg verkefni sem upp komu. Þau bjuggu til myndband sem gerir starfinu góð skil og hægt er að skoða það hér. 

Mikil uppbygging hefur átt sér stað á árinu en góður hópur af íslenskum sjálfboðaliðum, starfsmönnum og fleiri hafa lyft sannkölluðu grettistaki í ýmsum framkvæmdum. Bygging nýs framhaldsskóla er langt komin og er hún þrjár hæðir. Búið er að koma fyrir fleiri sólarsellum, mjög stórum vatnstanki var komið fyrir og stækkun á matsal og eldhúsi er langt á veg komin. Nýrri vatnsdælu var komið fyrir og vatnið gjörsamlega flæðir.

Nýtt skólaár hófst 3. október síðastliðinn og teknir voru inn inn 70 nýjir nemendur sem nú hefja sinn skólaferil.