Frá árinu 2008 hafa hjónin Hinrik og Guðný Ragnhildur, oftast kölluð Gullý, verið vakin og sofin yfir starfi ABC skólans í Búrkínó Fasó. Um nokkurt skeið hefur verið vægast satt verið óöruggt ástand í landinu. Þar sem áður ríkti friður á milli manna þvert á trúarbrögð og þjóðerni er nú litað óöryggi og skelfingu. Vígamenn hafa herjað á skóla og kirkjur, brennt þær niður og mætt kennurum skóla með ofbeldi og morðum. Þrátt fyrir það óveðurský ríkir bjartsýni í skóla ABC – ógninni er mætt af æðruleysi og samstöðu, líka á tímum heimsfaraldurs sem nú geisar. Starfandi framkvæmdastjóri skólans í Búrkínó Fasó, Kadi Bambara heimsótti þau hjón til Íslands nýverið og kynnti sér starfsemi samtakanna hér á landi.

Sá snjó í fyrsta sinn
Á huggulegu heimili hjónanna Hinriks og Gullýjar á Selfossi er boðið upp á kaffi og sætabrauð að íslenskum sið. Kadí heldur sig til hlés á meðan hjónin lýsa fyrir blaðamanni ástandinu í Búrkínó Fasó en eftir stutt spjall yfir góðum kaffibolla varð hún ræðnari og lýsir upplifun sinni af heimsókninni til Íslands og svaraði spurningunni sígildu –„How do you like Iceland?“ Feimnislega sagði hún að vetrarveðrið hefði komið henni í opna skjöldu. „Ég hef aldrei áður séð snjó“ – kuldinn og vindurinn eru ólík því sem hún er vön heiman frá sér. Stuttu eftir að Kadi kom til landsins gekk vetrarlægð yfir landið með tilheyrandi hamagangi en þá var hún ferð með hjónunum yfir Hellisheiðina eftir heimsókn til Reykjavíkur – „Hún neitaði að fara aftur til Reykjavíkur eftir ferðina, henni þótti nóg um skafla og skafrenning“ sagði Hinrik.
Þrátt fyrir þessa upplifun af íslenskum vetri er Kadi sátt við heimsóknina og segir það merkilega upplifun að sjá snjó í fyrsta sinn. Hún hringdi í fjölskylduna sína og ræddi heillengi við þau um íslenska veðrið og náttúruna.
Annars konar áskoranir
Hinrik er hugsi yfir ástandinu sem nú ríkir í Búrkínó Fasó. Hann segir mikla óvissu ríkja þar og né sé um 700.000 manns á vergangi og engin veit hvað gerist næst. „Fátæktin er mikil fólk er lamað og vanmáttugt gagnvart þessum aðstæðum.“ Hann segir stöðuna sorglega því áður var vinátta og kærleikur einkennandi í samskiptum landsmanna þvert á þjóðarbrot og trúarbrögð líkt og endurspeglast í nemendahópnum í skólanum.
„Meirihluti íbúa Búrkína Fasó eru múslimar en þrátt fyrir það að skólinn okkar sé kristinn þá eru nemendur í skólanum sem eru múslimar. Skólinn hefur skipað sér sess í samfélaginu og er eftirsóknarverður. „Við gerum ekki greinarmun á trúarbrögðum, börnin og menntun þeirra er okkar forgangur.“
Stefna skóla ABC er að veita börnum sem vegna fátæktar og aðstæðna hafa ekki tækifæri til að sækja menntun þrátt fyrir lagaskyldu tækifæri til menntunnar. Þeir sem hafa meira á milli handanna vilja koma börnum sínum að en hvergi er hvikað frá þeirri stefnu að börn efnaminni hafa ein forgang um menntun á þeirra vegum.

„Staðreyndin er sú að stúlkur fá síður tækifæri til að mennta sig og á það ekki einvörðungu við um Búrkínó Fasó sú stefna er víða um álfuna. En í skólanum okkar er hátt hlutfall stúlkna og eru kynjahlutföllin svo gott sem jöfn.“
„Ég elska vinnuna mína, hjarta mitt slær fyrir ABC“
Vegna ástandsins í Búrkínó Fasó hefur það reynst Hinrik og Gullý erfitt að komast þangað og því er starf Kadi þar mjög mikilvægt. Hún hóf störf sem ritari framkvæmdastjóra en starfar í dag sem staðgengill hans. Hún er gift og á þrjú börn og tvö þeirra sækja skólann og eiginmaður hennar gegnir ábyrgðarstöðu fyrir skólann og því má segja að starfsemi ABC sé líf hennar. Kadi hefur í mörg horn að líta starf hennar krefst útsjónarsemi og er enginn dagur eins. Aðspurð um framtíðarsýn sína segir hún að draumurinn sé að efla menntunina enn frekar og bjóða upp á fleiri tækifæri fyrir nemendurna.
„Ég tel það skipta máli að nemendur fái menntun sem veitir þeim tækifæri á góðu starfi i framtíðinni og geti séð fjölskyldum sínum farborða.“ Hún segir mikilvægt að efla iðnmenntun og er stolt af námi í bifvélavirkjun og skraddara sem skólinn býður upp á. Allir skólabúningar nemenda eru til dæmis saumaðir af skraddaranemum skólans. Ólæsi og fátækt er mikil í heimalandi hennar og því er iðnmenntun mikilvægur lykill að bættum lífskjörum ungs fólks í framtíðinni.
Mikilvægt skjól
Nýverið var stúlknaskjól við skólann tekið í notkun sem er ætlað að veita stúlkum sem hafa hrakist að heiman eða geta ekki verið þar lengur öruggan íverustað. „Fyrir Íslendingum er þetta óskiljanlegt en hér kemur sú staða oftar en ekki upp að feður taka sér yngri konur og þá er börnum fyrri eiginkonunnar ekki lengur vært á heimilinu og því hrekjast þær að heiman. Við veitum okkar nemendum sem eru í þessari stöðu skjól í stúlknahúsinu okkar. Þar búa þær að skóla loknum og er vandlega gætt af „mömmu“ sem sér um þær. Áhersla er lögð á þær sinni heimanámi og haldist í skólanum Þær sinna léttum heimilisverkum og geta dvalið hér í öryggi “- segir Hinrik.
Kadi er sérstaklega hlýtt til stúlknahúsins sem hún segir veita von og létta á álagi sem nemendur búi við og með því að þær dvelji þar þar sem þær geta ekki lengur dvalið á heimilum feðra sinna. „Skólinn er svo miklu meira en bara menntastofnun – þetta er líka heimili og griðastaður.“

Það fer ekkert á milli mála að þetta verkefni er henni mikilvægt og starfið henni allt – „ég elska vinnuna mína, hjarta mitt slær fyrir ABC“ – svaraði Kadi aðspurð um hug sinn til starfsins.
Traust og trúnaður lykill að árangri
Það er ekki sjálfgefið að ná þeim árangri sem unnist hefur í Búrkína Fasó. Staðan þar er flókin og menningarlegar hindranir raunveruleg áskorun.
Hinrik segir lykillinn að því að ná svo góðum árangri og ávinna sér traust í heimalandinu er að virkja heimamenn – þannig fæst traust og trúnaður sem er forsenda árangurs. „Við erum ekki bara hvíti maðurinn sem valsar inn og ætlumst til þess að allir sitji og standi eins og okkar siður er, slíkt skilar engu.“
En þrátt fyrir áralanga reynslu Hinriks og Gullýjar segjast þau stundum vanmáttug í erfiðum aðstæðum. „Hér er óskorðað feðraveldi og við verðum áþreifanlega vör við það. Við höfum ekki vald til að grípa inn í til dæmis varð nemandi okkar alvarlega veikur og hefði þurft á sjúkrahús en faðir hans þverneitaði. Í þannig aðstæðum verðum við sorgmædd og biðjum fyrir þeim.“
Hjónin eru þakklát fyrir Kadí segja að hún þekki vel til starfsins og sinni því af mikilli samviskusemi. „Okkar drifkraftur kemur úr því að byggja upp fólk það er það sem veitir okkur orkuna til að halda áfram. Það er ómetanlegt að hafa manneskju eins og hana við stjórnvölinn tekur pressu af okkur við vitum að starfið er í góðum höndum.“
Mikið vex af litlu
Mánaðarlegt framlag stuðningsaðila er einungis 3500 kr á mánuði – fyrir það fær styrkarbarn menntun, máltíð í skólanum, frístundastarf, skólabúning og möguleika á mannsæmandi framtíð. Kadi er þakklát öllum þeim sem styrkja starfið og segir stuðning ávaxtast ríkulega á hverjum degi sem barn fær tækifæri til menntunar og magafylli. Skólinn höfðar til ábyrgðar foreldra barnanna og leggur áherslu á að þeir styðji við heimanám barna sinna. Þeim er gerð grein fyrir því að það sé stuðningsfólk heima á Íslandi sem styrkir menntun barnsins þeirra og það sé ábyrgðarhluti að standa við það.
Efla samstöðu
Hinn hefðbundni skóladagur hefst klukkan hálfátta á morgnanna með fánahyllingu, nemendur hylla fána Búrkínó Fasó og Íslands. Fánahyllingin er liður í því að efla samstöðu þvert á þjóðflokka og efla þjóðarvitund nemenda. Skóladeginum lýkur klukkan fimm en eftir það tekur frístundastarfið við. Nemendur geta tekið þátt í ýmsum íþróttum og tónlistarstarfi. Kadi er stolt af kennarahópnum sem hafa lokið háskólanámi og eru sérgreinakennarar. Metnaður er lagður í að hafa sterkan kennarahóp og stefna margir aðstoðarkennarar að kenna að fullu við skólann að námi þeirra loknu og er dóttir hennar þar á meðal.
Máltíðin sem börnin fá í skólanum er sú mikilvægasta sem þau fá þann daginn, fjölskyldur eru barnmargar og fæða af skornum skammti. „ Við þökkum fyrir styrktarforeldrana okkar í morgunbæninni þannig viljum við kenna börnunum þakklæti og brýna fyrir þeim að taka námið alvarlega því það er gott fólk sem styrkir þau,“ segir Kadí.
Þrátt fyrir erfitt ástand í heimalandinu og nýja áskorun vegna Covid – 19 er Kadí bjartsýn og segist eiga sér þann draum að sjá fleiri nemendur útskrifast. Markmiðið sé að efla sjálfstæði nemenda og styrkja þá hugsun að þau geti náð árangri.
Fram undan er áframhaldandi uppbygging á verkefninu Lífland þar sem nemendur rækta eigið grænmeti og halda húsdýr eins og svín og kanínur. Við skólann starfar prestur sem sinnir líka ráðgjöf fyrir nemendur. Það er mikill metnaður til að gera vel og auka færni nemenda til framtíðar.
Samhent samfélag
Það er fer ekkert á milli mála að hugur og hjarta þeirra sem að starfinu koma er allur hjá skólanum. Hinrik og Gullý deila framtíðarsýn Kadíar og eru bjartsýn á áframhaldandi blessun yfir starfinu. „Það er draumur okkar að framtíðar leiðtogar Búrkína Fasó komi úr okkar röðum – að við séum að mennta forseta framtíðarinnar.“ Undir þetta tekur Kadí sem vonar að unga kynslóðin verði stolt af heimalandinu sínu og dragi úr flokkadráttum og sundrung. „Við höfum notið blessunar og erum þakklát fyrir góðar gjafir guðs og framlag Kadíar í Búrkínó Fasó,“ segir Hinrik að lokum.