Nandutu Caroline er nemandi í Kitetika skólanum í Úganda. Hún vill verða endurskoðandi þegar hún verður stór. Eins og hún segir í bréfi sínu þá ítrekaði móðir hennar gildi menntunar og lagði áherslu á hve mikið þarf að leggja á sig til að komast áfram í lífinu.
Nemendur í heimavist í ABC skólunum í Úganda búa við þétta dagskrá. Strax um morguninn er venjubundin yfirferð yfir námsefnið. Kennsla byrjar klukkan átta og stendur yfir til klukkan fimm að eftirmiðdegi. Þá taka við ýmis hópastörf áður en kemur að kvöldmat og að honum loknum býðst nemendum upp á einstaklingsmiðaðri aðstoð við námsefnið. Sú stund varir oft til klukkan hálf tíu á kvöldin. Eftir það er haldið í háttinn. “Það er erfitt að ímynda sér hvernig íslensk börn myndu taka svona þéttri dagskrá en mikilvægast í lífi fátæks barns í Úganda er að standa sig vel í námi. Velgengni á vinnumarkaði eykur líkurnar á því að öll fjölskyldan geti komið sér upp úr sárri fátækt,” segir Trudy Odita, forstöðumaður ABC Children’s Aid í Úganda.
Nandutu hefur lofað foreldrum sínum og sjálfri sér að leggja sig alla fram og gaman verður að sjá hvað bíður hennar í framtíðinni.