"Yfirskriftin var gleði gleði gleði" - ABC barnahjálp

"Yfirskriftin var gleði gleði gleði"

Ljósmynd: Sindri Reyr Einarsson

Óskar Einarsson, píanóleikari og kórstjóri, hélt upp á 50 ára afmæli sitt með því að halda gospeltónleika og allur ágóði af tónleikunum rennur til ABC barnahjálpar. Tónleikarnir voru haldnir í Lindakirkju þann 28. maí síðastliðinn. “Tónleikarnir gengu vonum framar og færri komust að en vildu. Yfirskriftin var bara gleði gleði gleði,” sagði Óskar sem var hæstánægður með hvernig kvöldið fór fram.

Að ósk Óskars mun ágóðinn renna til starfs ABC í Búrkína Fasó þar sem rekinn er skóli með tæplega 600 nemendum og nýverið var tekin til notkunar þriggja hæða framhaldsskóli. Upphæðin mun verða notuð til að festa kaup á sólarsellum sem breyta sólarljósi í rafstraum. Þær munu skipta sköpum fyrir áframhaldandi starfsemi skólans sem hefur komið upp tölvu- og tónlistardeild.

Fram komu Gospelkór Fíladelfíu og Kór Lindakirkju sem Óskar stjórnaði. Fjöldi einsöngvara steig á svið og í þeim hópi voru m.a.  Páll Rósinkranz, Jóhanna Guðrún og Anna Sigríður Snorradóttir.

Við hjá ABC barnahjálp viljum þakka Óskari fyrir þessa gríðarlega dýrmætu gjöf. Að auki þökkum við kærlega öllum þeim sem komu að þessum frábæra viðburði og svo að sjálfsögðu öllum tónleikagestum.

*Ljósmynd: Sindri Reyr Einarsson