Börn hjálpa börnum - ABC barnahjálp

Börn hjálpa börnum

Söfnunarátak ABC hefst á Akureyri

Árlegt söfnunarátak ABC barnahjálpar, Börn hjálpa börnum, hófst að þessu sinni í Lundarskóla á Akureyri mánudaginn 18. febrúar og stendur söfnunin yfir næstu vikurnar. Þetta er í 22. skipti sem söfnunin fer fram en hún gengur þannig fyrir sig að  börn í hinum ýmsu grunnskólum landsins ganga í hús í sínu skólahverfi, tvö til fjögur börn saman, og safna peningum í merkta ABC bauka. Alla jafna eru það nemendur í 5. bekk sem taka þátt í þessu mikilvæga verkefni og er það reynsla ABC að þau hafa mikinn áhuga á að hjálpa börnunum sem styrkt eru til náms í gegnum ABC barnahjálp. Nemendur fimmtu bekkja í Lundarskóla eru þar engin undantekning og höfðu ótal spurningar um störf ABC barnahjálp þegar söfnunin var formlega sett í skólanum. Laufey Birgisdóttir, framkvæmdastjóri ABC, Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri og Hulda Sif Hermannsdóttir, aðstoðarmaður bæjarstjóra kynntu söfnunarátakið, sýndu nemendum myndir af jafnöldrum þeirra í löndunum sjö sem ABC starfar og svöruðu spurningum.

Á meðal þess sem nemendur vildu vita var í hvað peningurinn sem þau safna verði notaður, hvað börnin í hinum löndunum læra, hvað þau borða, hvar þau fá föt og hvar þau sofa. Umræðurnar voru líflegar og skemmtilegar eins og sjá má á meðfylgjandi myndum.

Eðlilega vilja börnin vita í hvað peningarnir fara og nærtækast er að fara yfir söfnun síðasta árs en þá söfnuðu nemendur fimmta bekkjar úr um 70 grunnskólum 7.231.938 krónum.

Í Búrkína Fasó var íþróttasvæði fullbúið við ABC skólann. Nú er þar hand- og fótboltavöllur, sem og körfuboltavöllur. Auk þess var gámur sendur frá Íslandi til Búrkína Fasó og var hann sneisafullur af íþróttavörum, trampólínum og skemmtilegu dóti.

Við ABC skólann í Úganda var byggð ný heimavist fyrir stúlkur. Auk þess var Miriam neyðarsjóðurinn stofnaður við skólann og er veitt fé úr honum þegar erfiðar aðstæður skapast hjá nemendum og fjölskyldum þeirra. Sjóðurinn hefur nú þegar komið að miklu gagni þegar neyðin er mest.

Leiksvæði var útbúið við skólann á Indlandi og keypt stórskemmtileg leiktæki sem eru vel nýtt í öllum frímínútum! Sárlega vantaði tölvu, prentara og skanna á skrifstofu skólans og var það líka keypt.

Í Namelok í Kenía voru lagðar nýjar vatnsleiðslur og börnin fengu nýja skólabúninga og skólabækur. Auk þess voru keyptar íþróttavörur og tæki.

Stofnaður var neyðarsjóður fyrir skólann í Pakistan og hefur hann þegar komið að miklu gagni.

Ný salernisaðstaða var búin til fyrir heimavist drengjanna í ABC skólanum í Úganda.

Án efa taka Akureyringar vel á móti duglegum nemendum, með buff og bauka merkt ABC barnahjálp, næstu vikurnar. Við megum vera stolt af krökkunum okkar sem leggja sitt af mörkum til að hjálpa jafnöldrum þeirra ytra svo þeir geti líka öðlast menntun sem er svo dýrmæt!