Við hjá ABC barnahjálp viljum við óska ykkur gleðilegrar jólahátíðar og friðar á nýju ári. Með dyggum og beinlínis ómetanlegum stuðningi frá stuðningsaðilum okkar hefur ABC verið kleyft að starfa ár eftir ár og staðið trúföst að baki þúsundum barna og gefið þeim tækifæri til að mennta sig.
Þetta starfsár er okkur sérstakt fagnaðarefni því við fögnum 30 ára afmæli. Tugþúsundir barna hafa haldið út í lífið með menntun og von fyrir milligöngu ABC á þessum 30 árum, og í dag starfar ABC í sjö löndum en þau eru Bangladess, Búrkína Fasó, Filippseyjar, Indland, Kenýa, Pakistan og Úganda.
Starfsmenn ABC heimsóttu starfsstöðvarnar á árinu og heimsóttu skólana í Úganda, Filippseyjum og Búrkína Fasó, funduðu með starfsfólki, hittu börnin og heimsóttu fjölskyldur.
Vegna framlags stuðningsaðila okkar höfum við meðal annars getað endurnýjað og betrumbætt leiksvæði barnanna á Indlandi. Allir nemendur fengu nýja skólabúninga, skólabækur, töskur, skó og fleira
Í Namelok í Kenía var reist ný skólabygging ásamt tveimur fullbúnum kennslustofum. Í haust var borhola gerð á svæði skólans auk þess sem verið er að reisa múr í kringum skólasvæðið og lýkur því verki vorið 2019. Í Naíróbí var byggt nýtt eldhús og heimavist endurnýjuð.
Í Búrkína Fasó var byggður nýr skóli fyrir fimm ára börn. Íþróttarsvæðið á skólalóðinni hefur verið klárað og hafin er bygging stúlknaheimilis fyrir þær stúlkur sem eiga hvergi heima. Fyrsta útskrift úr véladeild var í vetur og fengu útskriftarnemendur allir töskur fullar af verkfærum og viðurkenningarskjöl.
Í Úganda var byggð ný heimavist fyrir stúlkur og salernisaðstaða fyrir drengi, nýr matsalur var byggður við framhaldsskólann. Síðast en ekki síst voru endurbyggðir vatnstankar með nýjum hreinsunarbúnaði við alla skólana.
ABC hóf samstarf við tvo nýja skóla í byrjun 2018, annar í Bangladess og hinn í Pakistan.
Sigurlín starfsmaður ABC heimsótti Bangladess í mars, “Heimili friðar“ tók út skólan og skrifaði undir samstarfssamning, auk þess sem hún heimsótti nokkrar fjölskyldur sem ABC styður í dag.
Þráinn Skúlason stjórnarmaður fór til Pakistan og heimsótti nýja samstarfsaðila okkar, markmið þeirra er að hjálpa múrsteinabörnunum að fá menntun og frelsi. Fljótlega var byggður vatnsbrunnur við skólann, heilsugæslu komið upp og mataræði og húsnæðið stórbætt. ABC hefur tvisvar á árinu komið að neyðarhjálp þegar miklar rigningar og flóð voru á svæðinu og eyðilögðu heimili og eigur foreldra barnanna sem eru stuðningsbörn ABC.
Grunnhugmyndin í starfsemi ABC barnahjálpar er að menntun sé eitt öflugasta verkfærið til að rjúfa vítahring fátæktar. Fyrir fátæk og munaðarlaus börn er það sannarlega ekki sjálfgefið að fá að ganga í skóla. Þess vegna er það forgangsmál að sem flest börn hefji skólagöngu og ljúki námi. Menntunin eykur til muna möguleikana á að fá vinnu og reglulegar tekjur eru forsenda þess að breyta stöðu fólks.
Á nýrri heimasíðu ABC getur þú nálgast upplýsingar um starfið okkar. Auk þess er síðan full af fróðleik og sögum af vettvangi sem gaman er að lesa. Tímaritið okkar er á leið til stuðningsaðila okkar í pósti en einnig er hægt að lesa það með því að smella á þenna hlekk Tímarit ABC barnahjálp desember.
Með góðri kveðju frá stjórn, starfsfólki og sjálfboðaliðum ABC barnahjálpar.