fbpx

Siðareglur

Hér að neða er nýjasta útgáfan af siðareglum ABC barnahjálpar.

Siðareglur þessar eru samþykktar af stjórn ABC barnahjálpar í þeim tilgangi að hvetja og aðstoða starfsfólk og sjálfboðaliða ABC við að sinna störfum sínum á vandaðan og árangursríkan hátt. Framkvæmdastjóri ABC er ábyrgur fyrir því að siðareglurnar séu sýnilegar á vinnustað og séu kynntar nýjum starfsmönnum og sjálfboðaliðum.

ABC barnahjálp er byggð á kristnum gildum með kærleiksboðorðin í huga að okkur beri að elska náungann eins og okkur sjálf og bera hvers annars byrðar þannig að við sýnum í verki að Guð er faðir föðurlausra og að hann réttir þeim hjálparhönd sem eru þurfandi og þjáðir.

 1. Ábyrgð á vinnustað
  1. Starfsfólk, sjálfboðaliðar og stjórn ABC skulu sinna störfum sínum af kostgæfni
   og í samræmi við siðareglur og vinnureglur starfsins.
  2. Starfsfólk, sjálfboðaliðar og stjórn ABC skulu leggja sig fram um að ABC sinni
   hlutverki sínu og að orðstír hjálparstarfsins skaðist ekki.
  3. Starfsfólk, sjálfboðaliðar eða stjórn ABC skulu aldrei leggja skjólstæðinga,
   stuðningsaðila, aðra starfsmenn eða sjálfboðaliða í hættu með gjörðum sínum eða orðum og skulu á hverjum tíma hegða sér samkvæmt siðareglum starfsins.
  4. ABC barnahjálp er hjálparstarf óháð stjórnmálaskoðunum þeirra landa sem starfað er í.
  5. Hlutleysi skal því ríkja þegar kemur að ólíkum stjórnmálafylkingum og
   starfsmenn, sjálfboðaliðar og stjórnarmeðlimir starfsins skulu ekki taka þátt í
   stjórnmálum viðkomandi landa á meðan starfað er undir merkjum ABC.
  6. Virðing skal höfð að leiðarljósi í samskiptum starfsfólks, sjálfboðaliða og stjórnar ABC. Kynferðisáreiti og einelti er ekki liðið og ekki skal mismuna fólki á grundvelli kyns, kynþáttar, litarháttar, kynferðis, tungu, fötlunar, aldurs, trúar, stjórnmálaskoðana eða annarra skoðana, þjóðernis, uppruna, eigna, ætternis eða annarra þátta.
  7. Starfsfólk, sjálfboðaliðar og stjórn ABC skulu fara vel með fjármuni og önnur
   verðmæti sem þeim er trúað fyrir eða þeir hafa til umráða vegna starfs síns og nota þau ekki í þágu einkahagsmuna sinna.
 2. Ábyrgð gagnvart stuðningsaðilanum
  1. Starfsfólk og sjálfboðaliðar ABC skulu veita stuðningsaðilum góða þjónustu og
   sinna samskiptum við þá samviskusamlega og af virðingu.
  2. Fyllsta trúnaðar og nafnleyndar skal gætt við stuðningsaðila, nema um annað sé
   rætt. Starfsfólk, sem hefur aðgang að trúnaðarupplýsingum stuðningsaðila, skal gæta fyllstu varúðar hvar og hvenær sem málefni stuðningsaðila eru til umræðu og meðhöndla gögn sem innihalda trúnaðarupplýsingar af varúð.
  3. Starfsmenn skulu ekki nota trúnaðarupplýsingar stuðningsaðila sér til framdráttar
   eða í þágu einkahagsmuna sinna.
  4. Starfsfólk og sjálfboðaliðar ABC skulu ekki mismuna stuðningsaðilum á
   grundvelli kyns, kynþáttar, litarháttar, kynferðis, tungu, fötlunar, aldurs, trúar,
   stjórnmálaskoðana eða annarra skoðana, þjóðernis, uppruna, eigna, ætternis eða annarra þátta.
  5. Engar sérstakar fyrirgreiðslur skulu veittar á grundvelli persónulegra tengsla.
 3. Ábyrgð gagnvart samstarfsaðilum á vettvangi og þiggjendum stuðnings
  1. Reglur um aðstoð skulu vera skýrar og aðstoð skal veitt á grundvelli þarfar eins og það er skilgreint í samningi á milli söfnunarskrifstofu og vettvangsskrifstofu.
  2. Fyllstu hlutlægni skal gætt við útdeilingu fjármuna.
  3. Engar sérstakar fyrirgreiðslur skulu veittar á grundvelli persónulegra tengsla eða af tilfinningalegum ástæðum.
  4. Meðferð og birting persónuupplýsinga og myndefnis af skjólstæðingum ABC
   skulu vera samkvæmt verklagsreglum starfsins.
  5. ABC starfar í anda kristinnar trúar og virðir trú, menningu og siði þiggjenda
   stuðnings. Engar trúar- eða menningarvenjur verða þó taldar ofar grundvallar
   mannréttindum og réttindum barna eins og þau eru skilgreind í
   mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna og barnasáttmála Sameinuðu
   þjóðanna.
 4. Ábyrgð og gegnsæi í meðferð fjármuna
  1. Starfsfólk og sjálfboðaliðar ABC skulu ekki afla styrkja með ólögmætum hætti
   eða með blekkingum og skulu fara í öllu eftir verklagsreglum um fjáraflanir.
  2. Starfsfólk og sjálfboðaliðar ABC skulu ekki veita styrkjum viðtöku ef minnsti
   grunur leikur á að peningunum hafi verið aflað með ólögmætum hætti.
  3. ABC barnahjálp skal leitast við að vera gegnsætt í starfi sínu. Leitast skal við að stuðningsaðilar viti hvernig fjármunum þeirra sé varið. Sömuleiðis skulu starfsmenn ekki gefa ósannar eða misvísandi upplýsingar.
  4. Starfsfólk ABC skal leitast við að halda rekstrarkostnaði í lágmarki.
  5. Allar færslur á fjármunum skulu skráðar með viðeigandi hætti og skal allt
   reikningshald vera undir innra og ytra eftirliti. Öll gögn ABC skulu vera tiltæk til endurskoðunar á hverjum tíma.
  6. Sé grunur um að grunnreglur um meðferð fjármuna hafi verið brotnar þannig að það hafi með beinum eða óbeinum hætti áhrif á starf ABC, skal það tilkynnt framkvæmdastjóra ABC og stjórnar ABC sem ber ábyrgð á rannsókn málsins.
 5. Ábyrgð gagnvart almenningi og fjölmiðlum
  1. Í samskiptum við fjölmiðla, fréttastofur og almenning skal fyrst og fremst gæta
   þess að réttar upplýsingar komi fram. Trúverðugleiki og gegnsæi ABC er lykillinn að því að efla og treysta orðstír starfsins og ímynd þess út á við.
  2. Þegar starfsfólk, sjálfboðaliðar og stjórnarmeðlimir ABC koma fram undir
   merkjum ABC skulu þau ekki tjá sig á opinberum vettvangi um stjórnmál þeirra landa sem ABC starfar í.
  3. Starfsfólk, sjálfboðaliðar og stjórn ABC gæta þess að upplýsingar um samtökin og tengd verkefni séu réttar og eins nákvæmar og kostur er. Það fullyrðir ekki meira en vitneskja gefur tilefni til hverju sinni, heldur viðurkennir hvenær þekking þess er takmörkuð og vísar fyrirspurnum til viðeigandi aðila.
 6. Ábyrgð gagnvart öðrum hjálparsamtökum
  1. Heiðarleika, virðingu og trúnaðar skal gætt í samskiptum við önnur hjálparsamtök og þess gætt að sameiginleg markmið verði höfð að leiðarljósi í fjáröflunum og kynningu.

Viðbrögð við brotum á siðareglum ABC

Ef vafamál koma upp er varða siðareglur þessar skal vísa málinu til stjórnar ABC.
Ef starfsmaður verður þess áskynja að reglurnar hafi verið brotnar skal hann gera viðvart um það með því að beina erindi til framkvæmdastjóra ABC eða að öðrum kosti til stjórnar ABC. Rökstudd ásökun um brot á siðareglum má aldrei bitna á þeim sem færir hana fram ef hún er gerð í góðri trú.

Samþykkt af stjórn ABC barnahjálpar þann 20.10.2020