fbpx

ABC í Úganda

Samtökin hétu áður Uganda Australia Foundation og voru stofnuð af hjónunum Trudy og Francis Odida. Trudy er áströlsk en Francis Úgandamaður. Þau hjónin hafa byggt upp viðamikið hjálparstarf sem sinnir þúsundum barna. Uganda Australia Foundation gerðist samstarfsaðili ABC árið 1993. Árið 2007 var svo nafninu breytt í ABC Children’s Aid Uganda.

Í dag styrkir ABC barnahjálp um 1.000 börn í Úganda með hjálp íslenskra stuðningsaðila og hefur byggt skóla í Kitetika og Rackoko í samstarfi við hjónin Trudy og Francis Odida.

Í dag styrkir ABC barnahjálp um 1.000 börn í Úganda með hjálp íslenskra stuðningsaðila og hefur byggt skóla í Kitetika og Rackoko í samstarfi við þau hjón. ABC Children‘s Aid Uganda rekur alls 9 skóla; forskóla, barnaskóla, framhaldsskóla og verknámsskóla .

Skólaárið í Úganda hefst í byrjun febrúar. Hvert skólaár skiptist niður í þrjár annir og taka börnin próf eftir hverja önn: febrúar – apríl, maí – ágúst og sept – nóvember.

Skólarnir skiptast í eftirfarandi:

  • Forskóli fyrir 3ja til 5ára börn.
  • Barnaskóli fyrir til 7. bekk. Í lok 7. bekkjar taka börnin samræmt próf.
  • Framhaldsskóli sem skiptist í S1-S4 með lokaprófi og síðan S5-S6 með lokaprófi sem gefur réttindi til að fara í háskóla.
  • Í stað framhaldsskóla geta nemendur valið starfsnám sem tekur yfirleitt 3 ár.

ABC í Kitetika og Kasangati

Kitetika og þorpin í kring eru u.þ.b. 16 km frá miðborg Kampala, höfuðborg Úganda. Flestir íbúanna eru sjálfsþurftarbændur sem berjast í bökkum við að láta enda ná saman. Flest heimilanna sem börnin okkar búa í eru byggð úr leirsteinum og eru án vatns og rafmagns. Í Kitetika hefur ABC rekið skóla fyrir fátæk börn síðan 1994. ABC skólarnir hafa hlotið fjölda viðurkenninga fyrir góðan námsárangur þrátt fyrir að nánast öll börnin komi úr lægstu stéttum þjóðfélagsins og búi við slæman aðbúnað.

ABC í Rackoko

Auk skólanna í Kampala rekur ABC Children’s Aid fjóra skóla í Rackoko í Norður-Úganda; forskóla (3ja til 5 ára börn), grunnskóla (1.– 7. bekkur), gagnfræðaskóla (8. til 12. bekkur) og verkmenntaskóla.

Acholi fólkið sem býr í Norður-Úganda hefur alist upp við stríðsástand s.l. 30 ár en þar geysaði stríð milli uppreisnarmanna sem kölluðu sig LRA (Lord’s Resistance Army) og stjórnvalda frá 1986 til ársins 2008. Um 90% hermannanna í uppreisnarhernum voru börn sem höfðu verið brottnumin og neydd til að berjast. Til þess að sporna við brottnáminu skylduðu stjórnvöld alla íbúa svæðisins til að flytjast í flóttmannabúðir í eigin landi þar sem heil kynslóð barna hefur alist upp við mjög erfiðar aðstæður. Áður en flóttamannabúðirnar voru settar á laggirnar voru íbúarnir, fátækir smábændur, fórnarlömb uppreisnarmanna. Þúsundir voru drepnir, börnin voru numin á brott og neydd til að berjast með uppreisnarmönnum og konunum nauðgað og misþyrmt.

UAF (Uganda Australia Foundation, síðar ABC) hóf hjálparstarf á þessu stríðshrjáða svæði í Rackoko í Pader héraðinu í Norður-Úganda árið 1993.

Í dag er stríðinu lokið og flóttamannabúðirnar hafa verið leystar upp. Margar fjölskyldur hafa verið skikkaðar af stjórnvöldum til að flytja í minni búðir nær upprunalegu heimilum sínum en mikið af íbúum hafa ekki í nein önnur hús að venda. Aðstaða fólksins í Rackoko er mjög erfið. Matur og vatn er af skornum skammti, hreinlætisaðstaða er frumstæð og híbýlin eru óviðunandi. Fátækt og sjúkdómar eru útbreitt vandamál meðal barnanna sem hafa þekkt lítið annað en þjáningar um ævina.

Auk skólanna rekur ABC Children’s Aid heilsugæslustöð fyrir íbúa Rackoko, útvarspsstöð sem útvarpar uppbyggilegu efni allt norður til Súdan og vestur til Kongó. Einnig hafa verið byggðar heimavistir fyrir börnin.

Fátækar fjölskyldur geta sótt um pláss fyrir börnin sín í ABC skólunum. Félagsráðgjafar og starfsfólk ABC ræða við foreldrana og taka skýrslur af börnunum. Oft eru fjölskyldurnar líka heimsóttar til að sannreyna að ástandið sé slæmt. Þau sem verst er ástatt fyrir eru tekin inn í stuðningsbarnakerfið. Foreldrar barnanna þurfa þó alltaf að borga eitthvað smá fyrir börnin sín. Þetta er gert til þess að þau taki þessu ekki sem sjálfsögðum hlut og til þess að börnin leggi sig fram. Upphæðin er þó aldrei hærri en fjölskyldan ræður við og getur einnig verið í formi vinnuframlags.

Eftir hrunið á Íslandi var orðið erfitt að reka skólana með fjármagni frá stuðningsaðilum eingöngu. Þá var tekið til þess ráðs að taka einnig inn börn sem geta borgað skólagjöld. Í dag greiða um það bil helmingur barnanna í skólunum skólagjöld og fá þau börn ekki stuðningsaðila. Þetta hjálpar til við að greiða kennurum laun, stendur straum af ýmsum öðrum tilfallandi kostnaði og lyftir upp meðaltalinu í skólunum sem eru vel metnir í samfélaginu.

Landið
Úganda er lítið land í Austur-Afríku, með landamæri að Súdan í norðri, Zaire í vestri, Rwanda og Tansaníu í suðri og Kenýa í austri. Úganda er ríkt af náttúruauðlindum en lélegir leiðtogar og mikil innanríkisólga hefur leitt til þess að landið býr í dag við mikil efnahagsleg vandamál. Úganda liggur yfir miðbaug jarðar. Það eru tvö regntímabil yfir árið; mars -maí og október-nóvember. Hitastig er tiltölulega stöðugt í 25-29 °c vegna hæðar landsins.

Íbúar Úganda eru af mörgum ættflokkum. Enska er opinbert tungumál en Swahili er talað víða í landinu. Luganda er aðalmálið sem talað er í suðri og Luo í norðri. Yfir 84% þjóðarinnar eru kristnir og um 14% múhameðstrúar. Um 80% íbúa eru bændur og landið er óháð öðrum um mat. Landið berst ennþá við fátækt og ójafnrétti en hefur samt upplifað mikinn fjárhagslegan vöxt og pólitískan stöðugleika. Úganda stóð tiltölulega vel efnahagslega þegar landið varð sjálfstætt árið 1962. Í stjórnartíð sinni rak Idi Amin hins vegar burt flesta þá sem bjuggu yfir erlendri þekkingu og unnu við iðnað og sú aðgerð hafði afar slæm áhrif á efnahag landsins. Langtíma átök gegn LRA og alnæmisfaraldur höfðu í för með sér alvarlegar afleiðingar fyrir efnahaginn í landinu.

Efnahagsástandið í Úganda hefur versnað til muna nú síðastliðið ár. Gengið hefur hríðfallið og matur, lyf og leiga hafa rokið upp í verði. Þeir sem finna mest fyrir þessum hækkunum eru þeir sem verst standa fjárhagslega.

Í Úganda eru engin eftirlaun og fá ekkjur engan stuðning eftir fráfall maka og einstæðar mæður njóta ekki efnahagslegs stuðnings. Þegar harðnar verulega í ári neyðast börnin oft til að flytja í burtu til ættingja þar sem móðirin getur ekki séð þeim farborða.

Í Úganda er fjölkvæni enn við lýði og oft verður skilnaður þegar konan kemst að því að maðurinn er að styðja við fleiri en hana. Eins er það algengt að karlmenn láti sig hreinlega hverfa þegar aðstæður verða erfiðar og konan neyðist til að sjá um börnin ein síns liðs. Það er ósanngjarnt en svona gerist.