fbpx

ABC á Filippseyjum

Manila

Árið 1990 hóf ABC í samstarfi við Barnmissionen í Svíþjóð að styðja börn í skóla á Payatas svæðinu í Manila, höfuðborg Filippseyja. Í byrjun nutu um 100 börn stuðnings og hefur þeim fjölgað og í dag njóta um 550 börn stuðnings til náms í gegnum ABC barnahjálp. Allt í allt hafa þúsundir barna notið stuðnings styrktaraðila í gegnum ABC barnahjálp.

Barnmissionen var stofnað árið 1983 af Sigvard Wallenberg. Árlega fá þúsundir hjálp í gegnum starf samtakanna á Filippseyjum. Barnmissionen rekur forskólann Molfrid Center í Manila og þar eru börn á aldrinum 4 til 6 ára tekin inn. Þar læra þau að þroska persónuleika sinn, lesa, skrifa, teikna og leika. Þau fá ókeypis menntun, skólabúning, bækur og skóladót, heilsugæslu og heita máltíð. Börnin eru í skólanum fram að fjórða bekk og fara þá í ríkisrekna skóla sem eru ókeypis.

Skólarnir á Filippseyjum skiptast í ríkisskóla og einkarekna skóla. Náminu er skipt í 4 stig; forskóli til þriðja bekkjar (grunnstig), bekkir 4-6 (grunnskóli), bekkir 7-10 (gagnfræðaskóli) og bekkir 11-12 (æðra stig gagnfræðaskóla). Síðan tekur við menntaskóli (college) sem er að jafnaði 4-5 ár. Háskóli býður svo upp á margar námsleiðir sem eru mislangar.

Á Filippseyjum er menntun í ríkisskólum ókeypis allt upp í 6. bekk eða 12 ára bekk en mörg börn fara ekki í skóla. Ástæðan fyrir því er að foreldrar geta ekki borgað kostnaðinn sem fylgir skólagöngunni; svo sem mat, strætó í skólann, bækur og þess háttar. Mikill fjöldi fátækra barna hættir því í skóla. Upp til hópa eru skólastofur troðfullar og algengt er að fjöldi barna í bekk séu 65-95 talsins. Skólabækur eru af skornum skammti og mikill skortur er á kennurum í ríkisskólum. Mikið hlutfall barna ljúka ekki barnaskóla og unglingaskóla.

Ríkisreknir skólar hefja skólaönn í júní og klára í mars mánuði. Einkareknir skólar hefja störf í júlí og klára í apríl mánuði.

Fjölskyldur barnanna sem Barnmissionen og ABC styðja eru mjög fátækar. Þær búa flestar við ruslahaugana í Manila í hreysum byggðum úr spítnarusli með bárujárnsþaki og moldargólfi. Fæstir hafa rennandi vatn né rafmagn. Eldunaraðstöðu er yfirleitt deilt með mörgum öðrum fjölskyldum og þvotturinn er þveginn í húsasundum. Kynferðisleg misnotkun er mjög algeng í Manila. Fæstar þessara fjölskyldna hafa efni á því að senda börnin sín í skóla því allur peningur sem fjölskyldan vinnur sér inn fer í mat.

Landið
Lýðveldið Filippseyjar er ríki í Suðaustur-Asíu og fimmta stærsta eyríki heims. Filippseyjar fengu sjálfstæði frá Bandaríkjunum árið 1946 eftir að hafa verið hernumdar af Japönum í seinni heimsstyrjöldinni. Í landinu búa um 118 milljónir manna og er það því tólfta fjölmennasta í heimi.
Filippseyjar eru þriðja fjölmennasta eyríki heims og er þéttleiki landsins álíka mikill og í Japan. Þar eru töluð 178 tungumál en nokkur þeirra eru einungis töluð af mjög fámennum hópum manna.
Höfuðborgin Manila er átjánda fjölmennasta borg heims. Meðalhitastigið er 26.6 gráður á celcíus og loftið mjög rakt. Það eru þrjár árstíðir; heiti tíminn eða sumar frá mars til maí, regntíminn frá júní til nóvember og kaldi tíminn frá desember til febrúar.