
Vorið 2020 keyptum við 40 feta gám sem fylltur var af húsgögnum og fatnaði sem Nytjamarkaðurinn safnað saman en bæði einstaklingar og fyrirtæki gáfu einnig gjafir sem fóru með. Þar á meðal voru reiðhjól, íþróttafatnaður og íþróttavarningur, heilt bretti af nýjum skóm, fatnaður, efni fyrir saumastofuna, verkfæri og garðyrkjuáhöld, vatnsdælur, tölvuskjáir og hljóðfæri.Gámurinn var sendur af stað frá Íslandi í janúar og var kominn á áfangastað í Búrkína Fasó þann 4. maí við mikinn fögnuð og gleði bæði barna og fullorðina.

Í byrjun febrúar 2021 opnaði ABC barnahjálp Nytjamarkaðinn í nýju húsnæði á Nýbýlavegi 6, eftir sex ára farsæla starfsemi í Víkuhvarfi 2. Flutningar af þessari stærðargráðu eru afar krefjandi, en starfsfólk ABC og Nytjamarkaðarins tóku höndum saman og leystu þetta verkefni af einstakri kostgæfni og góðri samvinnu. Í kjölfarið opnaði svo skrifstofa ABC barnahjálpar einnig skrifstofu í sama húsnæði þann 1. mars.

Endurbættur matsalur tekinn í notkun í ABC skólanum í Kitetika í Úganda.
Samkvæmt lögum í Úganda þarf að vera ákveðið langt á milli hvers nemanda þegar landspróf eru tekin og hafa því ekki allir nemendur skólans fengið að taka þau sökum plássleysis.
Matsalurinn hefur því nú verið nýttur í landsprófunum og hafa fleiri börn því átt kost á að ljúka landsprófunum og hefur menntunin aukið reynslu þeirra, færni í samskiptum og lífsleikni.

Það er ánægjulegt að tilkynna að starfsemin á Indlandi er orðin fullkomlega sjálfbær.
Samstarf ABC barnahjálpar og Heimilis litlu ljósanna lýkur á þeim ánægjulegu nótum að ekki er þörf á frekari fjárstuðning. Með dyggri hjálp stuðningsaðila og fjársafnana á rúmlega 20 árum hefur skólinn náð þessum áfanga.

Kvennakvöld til styrktar konum í Búrkína Fasó var haldið í maí í kaffisal Fíladelfíu. Heiðursgestur kvöldsins var Guðný Ragnhildur Jónasdóttir oftast kölluð Gullý. Sagði hún frá starfinu og lífi kvenna í Afríku.
Óskar Einarsson, píanóleikari og kórstjóri, hélt upp á 50 ára afmæli sitt með því að halda gospeltónleika í Lindakirkju, allur ágóði af tónleikunum rann til ABC. Upphæðin var notuð til að kaupa sólarsellur fyrir skólann í Búrkína Fasó.

Forseti Íslands Guðni Th. Jóhannesson setti formlega af stað söfnunina Börn hjálpa börnum í Áslandsskóla í Hafnarfirði. Frá upphafi hafa nemendur safnað rúmlega 120 milljónum króna til styrktar fátækum börnum í fjarlægum löndum. Söfnunin hefur verið hreint ómetanleg fyrir starfsemi ABC barnahjálpar.

Sjálfboðaliðar og heimamenn lyfta sannkölluðu grettistaki og mikið gerist á árinu í ABC skólanum í Búrkína Fasó.
Væntanlegi menntaskólinn kominn langt á leið, stærri vatnstanki komið fyrir, lögð vatnsdæla og vatnið flæddi sem aldrei fyrr, fleiri sólarsellum komið fyrir svo eitthvað sé nefnt.
Sjálfboðaliðar hafa verið duglegir að leggja leið sína til Búrkína Fasó og starfið hreinlega blómstrar.

Nýr nytjamarkaður, Hakuna Matata, var opnaður á Laugavegi 103. Þar var aðallega seldur fatnaður og smávara.
Í kjölfarið var lista- og menningarmiðstöðin Líf fyrir líf opnuð á sama stað. Hugmyndin með miðstöðinni var að bjóða fólki að taka að sér að styrkja barn í minningu látins ástvinar.
Starfsemi Hakuna Matata og Líf fyrir líf var hætt árið 2014.

Í lok ársins setti ABC á fót skóla að nafni ABC Complex School á svæði Masaai fólksins á miklu dreifbýlissvæði í Kenýa.
Framtíðarhorfur Masaai búa eru í miklu uppnámi sökum slæmra skilyrða og því binda þeir miklar vonir við menntun barnanna. Fátæktin á svæðinu er gríðarleg.
Nemendur skólans byrja í grunnskóla og geta klárað ígildi stúdentsprófs.

ABC ræðst í fyrsta innanlandsverkefnið í samstarfi við Marita fræðsluna og IOGT.
Samtökin kosta jákvæðar forvarnir í tólf grunnskólum fyrir nemendur og foreldra 5. og 6. bekkinga.
Magnús Stefánsson hefur haldið fjölda kynninga fyrir nemendur og foreldra. Frá og með árinu 2018 hefur hann talað við um 180.000 einstaklinga. Í dag eru kynningarnar undir nafninu “Forvarnarfræðsla Magga Stef”.

ABC hefur göngu skóla sem fræðir fólk um starfsemi samtakanna og hjálparstarf almennt. Fagfólk víða leggur lið við að móta kennsluefni og sinna kennslu. Í lok hverrar annar hélt hópur út á vettvang til Kenýa og fékk að að kynnast starfinu þar og taka virkan þátt.
Allir kennarar gáfu vinnuframlag sitt.

Nytjamarkaður ABC hefur göngu sína í Faxafeni í samstarfi við Líknarfélag Kærleikans. Ári seinna er hann fluttur yfir í Skútuvog og er alfarið rekinn af ABC barnahjálp og mannaður af sjálfboðaliðum á vegum samtakanna.
Stærra og betra húsnæði fannst handan við hornið í Súðarvogi og “Nytjó” orðinn að mikilvægri tekjulind fyrir samtökin. Markaðurinn festir rætur og hefur alla tíð síðan reynst ómissandi í að breiða út boðskap ABC ásamt því að vera heilmikil búbót fyrir landsmenn.

Hinrik Þorsteinsson og Guðný “Gullý” Ragnhildur Jónasdóttir halda út til Búrkína Fasó til að hefja starf á vegum ABC.
Viðamikið starf hefur byggst upp og í dag er kominn á laggirnar menntaskóli og munu nemendur geta klárað ígildi stúdentsprófs í skólanum.
Skólinn er staðsettur nálægt stóru fátækrahverfi og nemendur hefðu án hans ekki kost á skólagöngu.
Í fyrstu er byrjað að kenna í bráðabirgðarhúsnæði.
Í Úganda var byggð fjórða hæð nýja ABC skólans í Kitetikka.
Einnig var haldið áfram með uppbygginguna í Rackoko þar sem hafist var handa við byggingu heimavistar fyrir stúlkur.
Lokið var við byggingu álmu fyrir tilrauna- og tölvustofur við unglingaskólann í Kitetikka sem Þróunarsamvinnustofnun Íslands kostaði ásamt útvarpsstöð í Rackoko sem samstarfsverkefni með ABC barnahjálp.

ABC hefur samstarf við pakistana að nafni Sharif Ditta sem hóf starfsemi skóla í eigin húsnæði sem synir hans byggðu fyrir hann til að njóta eftirlaunaaldurs.
Alls stóð ABC fyrir byggingu sex skóla í landinu með söfnunum og stuðningi frá íslenskum styrktarforeldrum. Árið 2017 lauk samstarfi ABC í Pakistan en starfsemin gengur mjög vel og er orðin sjálfbær.
Einnig flytja höfuðstöðvar ABC barnahjálpar úr Sóltúni yfir í Síðumúla.

Árleg söfnun ABC barnahjálpar, Börn hjálpa börnum, fer af stað.
Nemendur í grunnskólum landsins taka höndum saman og ganga í hús eða til fyrirtækja á nærliggjandi svæðum og safna í bauka. Söfnunarféð er svo notað í ýmis brýn verkefni eða notað til að styrkja innviði skólastarfs í stuðningslöndunum.
Frá upphafi hafa þessir “sendiherrar ABC” safnað rúmlega 130 milljónum króna til styrktar starfinu.

ABC stendur fyrir byggingu íbúðarhúss og fjárfestir í landi fyrir Heimili litlu ljósanna á Indlandi.
Í gegnum árin hafa tugþúsundir fátækra barna fengið góða menntun í skólanum og á landsvísu hefur hann skarað fram úr ár eftir ár. Einnig er skólinn mjög sjálfbær þar sem rekinn er eigin búgarður og mikil grænmetisrækt er á svæðinu.
Íslenskir stuðningsaðilar hafa frá upphafi styrkt börn til náms og ABC hefur staðið fyrir fjölmörgum söfnunum sem hafa hjálpað til við uppbyggingu skólans.

ABC stendur fyrir stofnun heimilis fyrir götubörn í borginni Chennai á Indlandi. Hugsjónarkonan Eva Alexander stofnaði Comforter Ministries í þeim tilgangi að hjálpa hinum stéttlausu að mennta sig og komast í starfsnám.
Í gegnum árin hefur ABC staðið fyrir söfnunum og hjálpað samtökunum að koma sér upp og í dag er rekinn skóli sem gagnast þeim nauðstöddu sem annars gætu ekki nálgast menntun sökum stöðu sinnar og fátækt.

Samstarf hafið við Uganda Australia Foundation sem hjónin Trudy og Francis Odida stofnuðu til hjálpar nauðstöddum börnum í Úganda. Samtökin bera nafnið ABC Children’s Aid Uganda í dag.
Alls rekur ABC Children´s Aid Uganda níu skóla í landinu og samstarfið heldur áfram í dag. Íslenskir styrktaraðilar styðja á annað þúsund börn til náms í skólunum.

Árið 1990 hóf ABC í samstarfi við Barnmissionen, sænsk hjálparsamtök, að styðja börn til náms á Filippseyjum. Barnmissionen rekur þrjá forskóla, einn grunnskóla, stendur fyrir starfsnámi í alls kyns greinum og starfrækir barnaþorp í samstarfi við félagsmálayfirvöld.
Samstarf ABC við Barnmissionen hefur haldist alla tíð síðan og í dag taka sænsku hjálparsamtökin virkan þátt í gæðaeftirliti með skólum ABC.
Í dag styrkja íslenskir stuðningsaðilar hundruð barna til náms á Filippseyjum.
ABC barnahjálp safnaði einnig pening fyrir byggingu barnaheimilis í Kambódíu sem Barnmissionen rekur.