fbpx

ABC í Pakistan Lahore

Pakistan

ABC hóf samstarf við Community Care School (CCS) árið 2022.Skólinn byrjaði starfsemi það ár og er markmið þeirra að hjálpa múrsteinabörnum að fá menntun og frelsi.

Skólinn er í útjaðri stórborgarinnar Lahore, þar sem margar fjölskyldur eru skuldum vafnar við verksmiðjueigendur. Þar fá börn á leikskóla- og grunnskólaaldri bóklega og verklega kennslu og munu á endanum ljúka grunnskólaprófi. Þessi börn eiga það sameiginlegt að þau hafa ekki fengið neina kennslu áður en þau koma í CCS skólann. 

CCS var stofnaður árið 2022 af Ösmu Mustaq sem tilheyrir kristnum minnihlutahópi í Pakistan. Asma stundaði m.a. nám í Svíþjóð og var boðið að starfa þar en köllun hennar var að starfa fyrir illa staddar konur og börn í Pakistan. Núna stunda 54 börn nám við skólann í lítilli skólabyggingu en markmiðið er að skólinn muni vaxa jafnt og þétt á næstu árum, eftir því sem nýir árgangar bætast við.

Mikið er lagt upp úr því að nemendur læri um og verði meðvituð um rétt sinn og skyldur í samfélaginu. Markvisst er stuðlað að fræðslu um grunnþarfir barna, barnavernd, barnaþrælkun, mansal, kynjajafnrétti og fleira. Félagsleg vandamál eru mörg í landinu og mikið níðst á réttindum þegna landsins. Grunnskólinn er eins og á Íslandi frá 1. bekk upp í 10. bekk og þá taka nemendur samræmd próf.

 

Skólaárið í Pakistan skiptist í þrjár annir.

  • Fyrsta önnin er frá apríl – júní
  • Sumarskóli er frá júní – júlí
  • Önnur önn er frá september – desember
  • Þriðja önnin er frá janúar – mars

 

Múrsteinabörnin

Hinir bágstöddu eða þeir lágt settu í þjóðfélagsstiganum í Pakistan eiga ekki marga valmöguleika þegar kemur að því að sjá fyrir sér og sínum. Iðulega er um tvo valkosti að ræða, betla á götunum eða þiggja lán frá þeim sem fara fyrir stórum iðnaði í landinu, þ.m.t. múrsteinaverksmiðjum. Þyggi þeir lán bíður þeirra langur og erfiður vinnudagur við að búa til múrsteina úr leir. Yfirleitt skín sólin skært á daginn og fyrir vikið verður leirinn mjög heitur og vinnumenn þurfa að bera múrsteina á milli með berum höndum. Í nágrenni Lahore eru hundruð barna í þrælkunarvinnu og meðferðin á börnunum svo slæm að þeim er ekki heimilt að sækja skóla og vinnudagurinn er alla jafna 16 klukkustundir á dag sex daga vikunnar. Fulltrúar frá CCS semja við verksmiðjueigendur þegar tækifæri gefst og borga skuldir verkamannanna og leysa þar með börn þeirra úr ánauð (þrælkunarvinnu). Samtökin bjóða svo upp á skóla fyrir börnin þar sem þau fá menntun, mat, skólabúninga og heilsugæslu. Skólinn er á sama svæði og verksmiðjurnar og þar sem fjölskyldur barnanna búa. Flestar fjölskyldur búa í litlum múrsteina-kofum.

Óspillta kynslóðin

Það er samróma álit flestra að spilling sé helsta ástæða fátæktar í heiminum. Hugmyndafræðin um „óspillta kynslóð“ hefur verið innleidd víðs vegar í skólum ABC í Asíu og Afríku. Börnunum er kennt markvisst um neikvæðan áhrifamátt og umfang spillingar. Spilling snýst um bjagaðan hugsunarhátt frekar en sókn í peninga og munu komandi kynslóðir alast upp við fræðslu um þessa helstu ástæðu fátæktar og örbirgðar.

Landið
Opinbera nafn Pakistan er “Íslamska lýðveldið Pakistan” og höfuðborgin er Islamabad.

Íbúafjöldi Pakistan er rúmlega 240 milljón manns miðað við tölur frá árinu 2024. Það er fimmta fjölmennasta ríki heims og fjölgar íbúum landsins mjög ört.

Ólæsi er mikið vandamál en það er mismikið milli svæða, allt frá 10% í höfuðborginni og upp í 72% á mörgum dreifbýlissvæðum. Um 13% barna í Pakistan klára ekki grunnskóla. Ólæsi er mikið meðal stúlkna og kvenna. Fátækt er sérstaklega mikil meðal fólks í sveitum landsins. Margar aldir af arðráni í hinum ýmsu myndum hefur skilið íbúana eftir vansæla og bölsýna